Artists
Album Info
Release Date: 2009Label: SJS MUSIC
All tracks by Kristín Bergsdóttir.Framleiðandi: Smekkleysa
Vörunúmer - SJSMUSIC003
Mubla er titillinn á fyrstu plötu Kristínar Bergsdóttur, ungrar söngkonu sem hefur getið sér gott orð sem tónlistarmaður upp á síðkastið. Hún útskrifaðist frá tónlistarskóla FÍH sl. vor og hefur að undanförnu numið tónsmíðar við Listháskóla Íslands.
Mubla er titillinn á fyrstu plötu Kristínar Bergsdóttur, ungrar söngkonu sem hefur getið sér gott orð sem tónlistarmaður upp á síðkastið. Hún útskrifaðist frá tónlistarskóla FÍH sl. vor og hefur að undanförnu numið tónsmíðar við Listháskóla Íslands. Öll lög plötunnar eru eftir Kristínu sjálfa, en að hennar eigin sögn voru þau samin á löngu tímabili og því mörg hver ólík innbyrðis. Sungið er á íslensku og ensku á víxl og er jafnharðan farið úr frambærilegu R&B; grúvi á borð við innganginn og „Green Light“ yfir í hefðbundnari rómantískar ballöður eins og „Með þér“ og „Inconvenient Love“.
Hljómsveitin á plötunni er skipuð framvarðasveit ungra hljóðfæraleikara á landinu og er flutningur allur því mjög góður. Brass og strengir koma víða við og er greinilegt að mikið hefur verið lagt í útsetningar. Rödd Kristínar er björt, þokkafull og blátt áfram. Enga skopstælingu er að heyra, sem verður að teljast mikill kostur, og er yfirleitt sungið af sannfæringu, þó að óöryggis virðist stundum gæta í hendingamótun.
Fáein lög plötunnar smita hreinlega út frá sér þeirri gleði sem býr bæði í formi og flutningi, t.a.m. „Þú og ég“ og „Hali“. Bera þau e.t.v. vitni um nýfundinn áhuga söngkonunnar á brasilískri tropikalíutónlist, eins og fram hefur komið í nýlegum blaðagreinum. Önnur lög eins og t.d. No more“ eru öllu formfrjálsari og óhefðbundnari, einskonar endurspeglun af ringulreiðinni í textanum, en þar á þráðurinn til að tapast.
Þessi fyrsta plata Kristínar er nokkurskonar uppgjör við fyrri tónlistarsköpun í bland við þá nýju, og þótt óheildstæð sé er platan sem slík ágæt vísbending um hvers megnug Kristín er sem söngvari, laga- og textasmiður. Stefnir nú eðlilega upp á við og verður sannarlega forvitnilegt að heyra í framtíðarverkefnum tónlistarmannsins frambærilega.
Alexandra Kjeld