Artists
Album Info
Release Date: 1991Label: Svava Guðjónsdóttir
Heildarútgáfa á lögum Oddgeirs Kristjánssonar: Undurfagra ævintýr á tveim plötum.Lög Oddgeirs Kristjánssonar frá Vestmannaeyjum verða gefin út í heildarútgáfu á tveimur hljómplötum, diskum og tónböndum í nóvember í tilefni þess að tónskáldið hefði orðið 80 ára 16. nóvember nk.
Lög Oddgeirs hafa mörg verið sívinsæl með þjóðinni í 60 ár og má þar nefna "Ég veit þú kemur", "Bjartar vonir" og "Blítt og létt", en á Oddgeirsútgáfunni eru lögin flutt af einsöngvurum, kórum, lúðrasveit, hljómsveit og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Vestmanneyingar standa að baki útgáfunni og velunnarar Oddgeirs, en fjármagns til útgáfunnar er aðallega aflað í Vestmannaeyjum með því að leita til einstaklinga, bæjarsjóðs og félaga og fyrirtækja.
Alls verða 27 lög Oddgeirs í heildarútgáfunni, en útsetningar eru yfir 40 þar sem sum lögin eru bæði sungin og leikin af lúðrasveit og einnig í mismunandi útsetningum eftir því hvort kór flytur eða einsöngvari. Jón Sigurðsson bassaleikari hefur útsett 8 lög fyrir heildarútgáfuna og Ellert Karlsson hefur útsett syrpu lúðarsveitarlaga en úrval lúðrasveitarmanna úr Reykjavík og nágrenni leikur undir stjórn hans. Þá syngja einsöngvararnir Sigrún Hjálmtýsdóttir, Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Kristinn Sigmundsson, Bergþór Pálsson, Þorgeir Andrésson, Guðmundur Jónsson, Jóhann Sigurðsson og Dómkórinn, Fóstbræður og Karlakór Reykjavíkur syngja nýjar upptökur. Þá leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands Oddgeirssvítuna í útsetningu Magnúsar Ingimarssonar auk fleiri flytjenda. Heildarútgáfan skiptist í 5 þætti, lög í dægurlagaútsetningu, einsöngslög, kórlög, lúðrasveitarsyrpu og Oddgeirssvítuna. Heildarútgáfan á tónsmíðum Oddgeirs mun bera nafnið Undurfagra ævintýr, en textana við flest lög Oddgeirs, sem mörg hver eru landskunn þjóðhátíðarlög, gerðu Ási í Bæ, Árni úr Eyjum og Loftur Guðmundsson.
- Grímur.
Morgunblaðið 23. október 1991
---
Undurfagra ævintýr lög Oddgeirs Kristjánssonar
UNDURFAGRA ævintýr, útgáfa á hljómplötum, diskum og tónböndum með lögum Oddgeirs Kristjánssonar, er komin út. Þar eru 26 laga Oddgeirs í um 40 útsetningum.
Í fréttatilkynningu segir að mörg laga Oddgeirs Kristjánssonar hafi verið sívinsæl hjá þjóðinni síðan 1930, en sum þeirra sé verið að flytja í fyrsta sinn með þessari útgáfu sem tengd er 80 ára afmælisári Oddgeirs, sem lést aðeins 54 ára gamall.
Til fjáröflunar fyrir útgáfuna er m.a. safnað hjá velunnurum laga Oddgeirs í Eyjum og á fastalandinu og með sölu hljómplötunnar sem Skífan dreifir. Einnig er platan boðin til sölu í hverju húsi í Vestmannaeyjum.
Jón Sigurðsson tónlistarmaður hefur útsett 9 lög fyrir útgáfuna og Ellert Karlsson fyrir lúðrasveit. Sjö einsöngvarar syngja á plötunni, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Bergþór Pálsson, Jóhann Sigurðarson, Guðmundur Jónsson, Kristinn Sigmundsson, Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Þorgeir Andrésson. Þá syngja Dómkórinn, Karlakór Reykjavíkur og Fóstbræður og stórsveit lúðrasveita og Sinfóníuhljómsveit Íslands leika.
Á kápu umslags er mynd sem Sverrir Haraldsson listmálari teiknaði á sínum tíma fyrir forsíðu Oddgeirs, Vor við sæinn.
Oddgeir Kristjánsson.
Morgunblaðið 7. desember 1991