Artists
Album Info
Release Date: 1972Label: SG-Hljómplötur
Svanhildur er fyrir löngu orðin landskunnur skemmtikraftur. Ber þar jafnvel hæst hinn skemmtilegi leikur hennar í sjónvarpsþáttunum góðkunnu. Og þá einnig söngur hennar og hin örugga sviðsframkoma á skemmtunum hljómsveitar Ólafs Gauks víða um land síðustu árin.Og einnig viljum við hjá SG-hljómplötum þakka frægð hennar hinum fallega söng hennar á hinum mörgu plötum, sem hún hefur sungið inn á, þar sem hver einasta plata hennar hefur hlotið fádæma vinsældir. Er t.d. plata Svanhildar og hljómsveitar Ólafs Gauks, þar sem þau flytja lög Oddgeirs Kristjánssonar, einhver vinsælasta og vandaðasta plata, sem við höfum gefið út.
Á þessa nýjustu plötu Svanhildar valdi Ólafur Gaukur lög, sem flest öll eru létt og skemmtileg, sannkölluð sumarlög, en nokkur eru hér einnig, sem eru rólegri, svo sem Með penna í hönd og Blár varstu sær. Og þá eru hér lögin, sem hlutu fyrstu og önnur verðlaun í söngvakeppni sjónvarpsstöðva Evrópu fyrir nokkrum vikum. Eru það lögin no. 1 og 2 á hlið B. Og þrekvirki er það út af fyrir sig hjá Ólafi Gauki, að gera alla textana á plötunni. Allir eru þeir vandaðir. Léttir og skemmtilegir, þar sem við á, en tregablandnir, þegar lagið gefur tilefni til þess.